Hér á Íslandi eru skriðdýr bönnuð að öllu leyti. Einstaka sinnum hafa þó verið veittar bráðabyrgða-undantekningar fyrir t.a.m. skriðdýrasýningar.
Bannið var sett upp úr 1990 í kjölfar salmonellusmits sem rakið var til vatnaskjaldböku, en þær voru gífurlega vinsælar erlendis á þessum tíma og nutu einnig nokkura vinsælda hér á landi.

Landbúnaðarráðherra og yfirdýralæknir hafa mest að segja varðandi innflutningsbannið og eru lögin þannig ofin að í raun er allur innflutningur dýra bannaður, en svo er hægt að veita undantekningar. Þessar undantekningar eru iðulega veittar hundum, köttum, fuglum, fiskum og vissum tegundum nagdýra, s.s. kanínum, hömstrum og músum.

Ástæðan fyrir skriðdýrabanninu er fyrst og fremst bara ein: Salmonella.
-Margir telja að bannið sé í gangi vegna þess hversu "hættuleg, ógeðsleg, hræðileg (o.s.frv.)" skriðdýr eru. - Vonandi hefur þetta fólk rangt fyrir sér, því fæst skriðdýr eru hættuleg og hin atriðin eru hreinlega smekksatriði. Ef skriðdýr væru bönnuð vegna þess að þau væru talin hættuleg, hvers vegna eru þá svokallaðir vígahundar leifðir hérlendis? - Hvað þá skotvopn?

Það kom mörgum vissulega á óvart þegar vígahundarnir fengu inngöngu í landið okkar - Hér eru komin dýr sem að geta dregið hraustan fullorðinn mann til bana á örfáum sekúndum. En þessir hundar gera það ekki vegna þess að eigendur þeirra ala þá vel og rétt upp. Hér er ábyrgðin á að ekki fari illa alfarið á eiganda dýrsins.
-Ef við lítum aftur á ástæðuna fyrir skriðdýrabanninu, salmonelluna, þá smita þessi dýr aldrei nema að hreinlæti sé ábótavant og saur berist inn í mannslíkamann. Í grófum dráttum má segja að sá sem smitast af salmonellu frá skriðdýri þurfi til þess að éta saur dýrsins, bera hann í augu sín eða í opið sár. Hér ætti ábyrgðin einnig að vera hjá eiganda dýrsins, en yfirvöld hafa hér gripið inn í og bannað dýrin. - Finnur einhver annar forræðishyggjustybbuna hérna?

-Ef salmonella er svona stórhættuleg, hvers vegna er þá hægt að kaupa hrá egg úti í næstu matvörubúð? Það er jafnvel hægt að kaupa hrátt deig sem inniheldur egg í vissum verslunum á landinu!
Aðrir telja að skriðdýrin séu bönnuð vegna þess að þau gætu sloppið út í náttúru Íslands og sett dýralífið hér á annan endan. Til þess að það sé mögulegt þurfum við að vera ansi dugleg að menga og ýta hressilega á eftir gróðurhúsaáhrifunum. -Jafnvel með slíku mengunarátaki tæki það mörghundruð ár að breyta loftslaginu hérna svo skriðdýr gætu þrifist hér - Og þá væri dýralífið hérna hvort sem er farið úr skorðum vegna loftslagsbreytinga. Ef hitastigið fer undir 26-28°C hætta meltingarfæri skriðdýranna að virka - Þannig gæti iguana eðla soltið í hel á Íslandi þótt hún tætti í sig öll þau ber og laufblöð sem hún myndi finna. En til þess að gera skriðdýrunum erfiðara fyrir að setjast að hérlendis, hafa þau einnig kalt blóð og þurfa þess vegna hátt hitastig til þess að geta lifað og hreyft sig. Ef hitastigið fer undir 20-22°C verða þau sljó, hreyfingalítil og deyja á endanum. - Hversu oft er heitara en 20°C hérlendis? Fimm daga á ári ef við erum heppin!

Það gæti verið langt í land þangað til skriðdýrabanninu verður aflétt. Það virðist ekki vera nóg að benda á að almennt hreinlæti bægi burtu allri smithættu. Það þarf margt að laga. Til að mynda hafa bæði skriðdýr og skriðdýraeigendur á sér mjög slæma stimpla.
Margir telja skriðdýraeigendur vera eiturlyfjafíkla, krimma og úrþvætti þjóðfélagsins. Það liggur við að það sé nóg fyrir suma að vita að viðkomandi eigi skriðdýr til þess að mynda sér fyrrnefnda skoðun á manneskjunni.
Það er heldur ekki óalgengt að fólk tali um að skriðdýrin séu öll eins og hegði sér sem tilfinningalausar vélar, geti ekkert lært né gert utan eðlishvatarinnar og bindist engum tilfinningaböndum við eigendur sína né þeir við skriðdýrin sín. Þetta er vissulega alrangt. Þó skriðdýrategundirnar séu misjafnar, þá eru einstaklingarnir innan skriðdýraflokksins það líka. Dæmi eru um að iguana eðlur hætti að borða þegar eigandinn skreppur t.d. í frí í nokkra daga, jafnvel þó að aðstandandi hafi verið fenginn til að færa eðlunni ferskan mat daglega. Þegar skriðdýr eru tekin af skriðdýraeigendum hérlendis þá er þeim alls ekki sama um það - Að missa gæludýr ristir djúpt, hvort sem það var kornsnákur eða golden retriever hundur. Það er ekki ósennilegt að skriðdýraeigendur bindist dýrunum sínum jafnvel sterkari böndum en eigendur annara tegunda, því skriðdýrin þurfa oftar en ekki meiri umönnun, tíma og athygli.

Skriðdýrabannið er komið til að fara. Að treysta einstaklingum ekki fyrir hreinlæti sinna eigin híbýla er bara toppurinn á ísjakanum. Reglur sem fylgja í kjölfar skriðdýrabannsins teygja anga sína í stéttir lækna og dýralækna. Ef að maður er bitinn af iguana eðlu og leitar sér læknisaðstoðar, þá ber viðkomandi lækni, lögum samkvæmt að rjúfa hippókratesareiðinn og tilkynna lögreglu að maðurinn hafi komist í tæri við skriðdýr. -Leitað verður logandi ljósi að dýrinu í kjölfarið þar til það hefur verið fundið og því fargað.
-Þetta kvetur einungis til þess að fólk sem bitið er af skriðdýrum reynir að gera að sárum sínum heima við í ósótthreinsuðu umhverfi og illa tækjum búið.
Dýralæknarnir eru settir í enn meiri klípu með séríslenskum reglugerðum, en dýralæknar um allan heim þurfa að sverja staðlaðan eið til þess að fá starfsréttindin og hljóðar hann svo: "Aldrei að vísa brott sjúku dýri." - En ofan á þetta bætist svo hin séríslenska regla: "Aldrei að sinna ólöglegu dýri."
Brjóti dýralæknirinn aðra af þessum reglum gæti hann misst starfsleifið og áralöng menntun farið í vaskinn. -Ef komið er með skriðdýr til dýralæknis hér á landi verður dýralæknirinn að brjóta aðra regluna.

Til þess að banninu verði aflétt þarf að líkindum að afmá þá fordóma sem skriðdýr og eigendur þeirra hafa á sér og upplýsa almenning jafnt sem yfirvöld um að hér sé engin hætta á ferð. Þetta gæti tekið langan tíma, en hver veit nema með jákvæðu viðmóti og þrautsegju getum við fellt bannið - Það sakar ekki að reyna!
-Bannið burt!

Sjá einnig gein um salmonellu.

Að lokum er hér athygliverð grein um skriðdýrabannið á vísindavefnum: SMELLA HÉR!