Hvað eru sníkjudýr?
Sníkjudýr eru öll þau dýr sem að lifa á eða í öðrum dýrum (sem þá kallast hýslar), og þau gætu skaddað hýsilinn, en oftast draga þau hýsilinn ekki til dauða. Iguana eðlur geta orðið hýslar fyrir ýmis snýkjudýr, bæði utan á líkamanum og innan hans. Nýbakaðir iguanaeigendur ættu alltaf að láta dýralækni yfirfara nýju eðluna og athuga hvort nokkur snýkjudýr séu á kreiki. Jafnvel þótt langflestar iguanaeðlur í dag séu aldar upp á eðlubúgörðum (en ekki veiddar beint úr náttúrunni) þá eru samt líkur á því að þær beri snýkjudýr. Þá geta eðlurnar líka smitast af sníkjudýrum frá öðrum eðlutegundum í gæludýrabúðunum, svo þetta er ekki eitthvað sem eingöngu varðar eigendur iguana eðla sem eru veiddar beint úr náttúrunni.

Útvær sníkjudýr:

Blóðmaur:
Blóðmaurar eru áttfætlur sem að festa sig við hýsil sinn og þrífst þar á blóði og vessum hans. Blóðmaurar geta einnig borið sjúkdóma.

Einkenni:
-Eðlan klórar sér furðulega mikið.
-Eðlan á í vandræðum með að fara úr ham.
-Furðulega útlítandi eða skemmd hreistur á einstaka stöðum.
-Sýnilegir blóðmaurar á röltinu á eðlunni, eða það sem algengara er, sjást fastar í húðfellingum eða undir hreistri. Eftirlætis staðir blóðmaura eru mjúka húðin í kring um augun, í handakrikunum og í klofinu.
Meðhöndlun:
-Ein leið til að losna við blóðmaur er að hylja þá í jarðolíuhlaupi. Hlaupið hylur önduraropin á líkömum blóðmauranna og þeir kafna, deyja og detta af.
-Önnur leið er að grípa um líkama blóðmaursins með læknistöngum, eins nálægt höfði hans og mögulegt er og toga varlega þar til hann sleppir takinu. EKKI toga snögglega eða harkalega þar sem þá mun höfuðið sennilega verða eftir inni í eðlunni og getur valdið slæmri sýkingu.
-Þegar maurinn hefur verið fjarlægður skal bitsárið hreinsað og skolað með fúkkalyfssmyrsli.
-Grandskoðaðu búr eðlunnar og athugaðu hvort þar leynist nokkuð fleiri blóðmaurar og skiptu um undirlag í búrinu. Blóðmaurar eru ekki nærri því eins algengir og skaðlegir eins og frændur þeirra, mítarnir.

Mítar:
Eins og blóðmaurarnir eru þeir áttfætlumaurar sem festa sig við hýsil sinn og sjúga blóð. Þeir eru miklu smærri og finnast í miklu magni á eðlunni og í búrinu. Mítarnir eru mun virkari en blóðmaurinn og virðast vera agnarsmáir punktar sem hreyfast. Ef þú átt eðlu sem hýsir míta, þá ertu í vandræðum.
Einkenni:
-Þeir hafa sömu einkenni og blóðmaurarnir, en mítarnir eru mun smærri og því erfiðara að taka eftir þeim. Þeir halda sig helst við sömu staði og blóðmaurinn; í kring um augun, í handakrikunum og í klofinu.
Meðhöndlun:
Meðhöndlunin er tveggja þrepa ferli. Þú verður að meðhöndla eðluna og einnig verðurðu að meðhöndla búrið vandlega. Þrepin tvö eru hvorki auðveld né skemmtileg, en þau eru nauðsynleg til þess að losna við mítanna.

Að meðhöndla eðluna:
-Þú getur borið lag af barnaolíu eða jarðolíu á eðluna og látið olíuna liggja á eðlunni í nokkrar klukkustundir í senn áður en þú skolar hana aftur af. Þetta kæfir mítana. Þú þarft að endurtaka þetta vikulega þar til mítarnir hverfa alveg.
-Þú getur haft samband við dýralækninn þinn og fengið flóasprey. Ekki nota nein eiturefni á eðluna þína án þess að tala við dýralækninn þinn fyrst! Eingöngu ætti að notast við efni sem dýralæknirinn samþykkir (svo sem sprey sem framleitt er fyrir unga kettlinga). Ef dýralæknirinn samþykkir ákveðna vöru, geturðu úðað henni á handklæði og strokið því svo yfir alla eðluna. Fara skal sérstaklega vel yfir eftirlætis svæði mítanna (sjá hér að ofan í einkennalistanum). Þú þarft að fara sérstaklega varlega í kring um augun. Að úða fyrst á handklæði í stað þess að úða beint á eðluna sjálfa gefur þér meiri stjórn á því hversu mikið af efninu fer hvert og hvert efnið á ekki að fara (svo sem í augun).
-Vinsæl leið til þess að losna við míta er að setja eðluna í bað. Baðvatnið skal blandað með Betadíni, nógu miklu til að gera vatnið te-brúnt að lit. Vatnið ætti að ná eðlunni ca. upp að öxlum. Þar sem mítarnir geta skriðið upp á höfuð eðlunnar til að sleppa undan vatninu skaltu varlega hella vatni yfir höfuð eðlunnar, en gættu þess þó að ekkert vatn fari í augu hennar. Eftir baðið skaltu setja Betadín í klút og strjúka honum í kring um (ekki í) augun, í handakrika, í húðfellingar við fætur og við endaþarminn - öll þau svæði þar sem mítarnir vilja halda sig. Þetta skal gera einu sinni til tvisvar í viku þar til mítarnir koma ekki aftur.

Að meðhöndla búrið:
-Fjarlægðu undirlag búrsins og hentu því. Þrífðu VANDLEGA búrið og allt sem í því er (greinar, matardallar, klifurdót o.fl.). Láttu allt liggja í bleikiefnislausn sem er: Hálfur bolli bleikiefni á móti tæpum fjórum lítrum af vatni. Allt þarf að liggja í bleikiefnislausninni í að minsta kosti átta klukkustundir. Skolaðu svo vel og láttu loftþurrkast í að minsta kosti 24 klukkustundir. (gættu þess að eðlan sé hvergi nærri, gufurnar geta verið mjög skaðlegar).
-Hluti í búrinu sem eru úr timbri má baka á hitanum 90 til 120°C í þrjár klukkustundir til þess að drepa alla míta og/eða egg sem þar gætu leynst.
-Mítar eru rosalega þolnir gegn jafnvel sterkustu sótthreinsiefnum. Þess vegna þarftu að meðhöndla búrið með meindýraeitri til þess að losna við þá fyrir fullt og allt. Þetta geturðu gert með því að setja flóaólar inn í búrið. Staðsettu ólarnar þannig að þær komist hvergi í beina snertingu við búrið sjálft (t.d. veggi, gólf eða loft búrsins). Þetta geturðu gert með því að leggja ólarnar á álpappír. Reyndu svo að loftþétta búrið eins vel og mögulegt er og láttu ólarnar liggja í búrinu í margar klukkustundir. Á meðan geturðu hreinsað nánasta umhverfi búrsins vandlega til að hindra að mítar komist aftur inn. Að þessu loknu skaltu láta búrið lofta vel í marga klukkutíma áður en þú lætur eðluna aftur inn í búrið.

Eftir meðhöndlun er mjög mikilvægt að fylgjast sérstaklega vel með eðlunni og búrinu og sjá hvort mítarnir komi aftur. Eggin, og verulega smávaxnir og óþroskaðir mítar geta leynst víða og sloppið við meðhöndlun. Meðhöndlun á bæði eðlunni og búrinu skal endurtekin þar til mítarnir hverfa fyrir fullt og allt. Í útlöndum er einnig hægt að kaupa skordýr sem að þrífast á mítunum, en skaða iguana eðluna ekki. Þessar verur éta alla míta og egg þeirra og deyja svo úr sulti. Því miður veit ég ekki til þess að þessi dýr séu seld hér á landi.

Innvortis sníkjudýr:
Það eru til margar tegundir innvortis sníkjudýra sem geta lifað í meltingarvegi eðlunnar og rænt hana næringarefnum, ert þarma hennar og valdið almennri vanlíðan ef ekkert er að gert.

Tegundir innvortis sníkjudýra:
-Frumdýr (Protozoans): Einfrumungar sem eru stærri og flóknari en bakteríur. Í þessum flokki eru meðal annars svipudýr, bifhærð- og randhærð dýr, amöbur og hreyfingarlausir einfrumungar.
-Hringormar og þráðormar (Round Worms / Nematodes): Óliðaðir ormar sem hafa hringlaga líkama. Í þessum flokki er njálgurinn einna algengastur.
-Flatormar og bandormar (Flatworms / Cestodes): Hér höfum við bandormana, þeir eru ekki eins algengir í iguana eðlum eins og þeir eru í t.d. hundum og köttum, en þó koma upp tilfelli einstaka sinnum.

Einkenni invortis sníkjudýra:
-Lystartap.
-Máttleysi og dofi.
-Slím í saurnum.
-Sýnilegir ormar í saurnum.
-Þyngdartap eða þá að eðlan þyngist ekki þrátt fyrir mikla matarlyst.
-Eðlan kúkar óvenjulega oft og saurinn er þunnfljótandi og/eða sérstaklega illa lyktandi.

Meðhöndlun:
-Ett það fyrsta sem nýbakaður iguanaeigandi ætti að gera er að taka ferskt saursýni frá nýju eðlunni og fara með það til dýralæknis. Dýralæknirinn mun rannsaka sýnið og geta sagt til um ef eitthver sníkjudýr finnast í því.
-Þegar borin hafa verið kennsl á sníkjudýrin mun dýralæknirinn skrifa upp á lyf til þess að losna við þau. Fylgdu leiðbeiningum dýralæknisins vandlega þannig að skammtastærðir og inngjöf fari rétt fram. Best er að mæta aftur með saursýni til dýralæknis eftir að lyfjagjöf hefur verið hætt til þess að ganga úr skugga um hvort frekari meðferð sé þörf.
-Eðlubúrið þarf að þrífa og sótthreinsa til þess að drepa egg sem gætu legið í því.
-Á meðan á meðferð stendur er mikilvægt að saur sé fjarlægður úr búrinu um leið og eðlan hefur hægðir til þess að sporna við því að eðlan smitist aftur.

Til að athuga hvaða lyf eru oftast gefin við innværum sníkjudýrum er hægt að skoða þessa síðu.