Ég var á leiðinni upp í Ártún eftir annasaman vinnudag. Að venju ferðaðist ég með strætisvagni. En þessi ferð átti eftir að verða vandræðalegri og óþægilegri en áður. Ég vissi það vitaskuld ekki þarna þar sem ég stóð með bros á vör, tottaði sígarettu og beið vagnsins. Veðrið var gott og miðbærinn var sleginn gulli kvöldsólarinnar. Vagninn var ekki á áætlun, en mér var nokkuð sama því amstur dagsins var yfirstaðið og við skyldi taka áköf afslöppun og sjónvarpsgláp. Loks kom hann, frekar drullugur eftir linnulausan akstur um götur borgarinnar. Ég nánast valhoppaði inn í vagninn þar sem ég rak strætókortið mitt framan í fúllyndan vagnstjórann og trítlaði í átt að eftirlætis sætinu mínu.


Skuggaleg vera sat aftast í vagninum og virtist hvessa á mig augun. Þegar nær dró sást glampa í galopin augun. Bros mitt var ekki lengur ekta, það var frosið fast við smettið á mér og ég þorði ekki að taka það af. Það fór um mig hrollur og ég hlammaði mér næsta sæti sem ég fann þó nú sæti ég mun framar í vagninum en ég var vön að gera. Ég leit við til þess að fullvissa mig um að hann væri hættur að stara en þá mætti mér trillingslegt augnaráð, það glampaði í hvítuna og illkvittnislegt glott leið um andlit hans er augu okkar mættust. Það skein í skakkar, hvítar tennurnar í öðru munnviki hans. Hann rumdi og hagræddi sér í sætinu. Blikkaði ekki augunum. Starði bara stíft á mig. Ég sneri mér snöggt við aftur og stífnaði öll upp. Bros mitt var nú alveg horfið og í stað þess var komin óttablandin skeifa. Ég ákvað að reyna að hunsa hann og hugsa um eitthvað annað.


Ég horfði út um gluggann en sá ekki neitt. Annars vegar var auglýsing fyrir glugganum sem að byrgði mér sýn og hins vegar tók ég að finna fyrir starandi augnaráði hans bora sig inn í hnakkann á mér. Hann byrjaði að söngla perralega og kaldur sviti ruddi sér leið niður með bakinu á mér. Ég lét mig leka hægt niður í sætið mitt til þess að skýla höfðinu bakvið sætisbakið en þá heyrði ég þrusk aftan úr vagninum. Ég stífnaði aftur upp og hausinn á mér skaust upp fyrir sætisbakið á ný. Ég fann að hann var staðinn upp, enn borandi augunum inn í mína innstu sálarkima. Einhvað var ekki eins og það átti að vera, það var slatti í næsta strætóskýli. Ég reyndi að mana sjálfa mig upp í að líta við aftur, en ég þorði það ekki fyrr en ég heyrði fótatak. Hann studdi sig við slá í lofti vagnsinns og gekk hægum en öruggum skrefum í átt að mér, einbeittur á svip og ég sá að ég var enn fangi geðsýkislega augnaráðsins. Ég tók kipp og snerist fram aftur og hjarta mitt var farið að berjast ákaft um í brjósti mér, en þá settist hann niður aftur. Tveimur sætum fyrir aftan mig. Ég leit snögglega við aftur og nú sá ég hann greinilega. Kvikindislega glottið var komið á hann á ný og augu hans átu sig í gegn um mig. Hann var líklega kominn á sjötugsaldurinn, tekinn í andlitsdráttum og eitt og eitt skegghár stóð langt út úr broddaskóginum. Hann rumdi hljóðlega, en óhuggulega, í hverjum andadrætti. Ég lak niður í sætið á ný. Mér hafði aldrei liðið svona illa á ævinni. Aftur heyrði ég þrusk að baki mér, rétt eins og hann væri að teygja sig til þess að skyggnast yfir sætisbakið. Ég var nærri lekin niður í gólf. Þannig var ég þar til mig var farið að verkja í allan líkaman. Þá stóð hann upp eina ferðina enn, gekk rymjandi þungum skrefum að mér og staðnæmdist yfir mér. Ég fann núna sterkt fyrir því hvernig hann starði á mig. Ég fann hvernig djöfuleg áform hanns með mig færðust nær og nær veruleikanum með hverjum rymjandi andadrætti. Hjarta mitt virtist ætla að mauka öll önnur innri líffæri og um stund hélt ég að það myndi líða yfir mig, en þá skyndilega fékk ég auka styrk, spratt á fætur og gargaði af öllum lífs og sálar kröftum: “Láttu mig í friði helvítis pervertaógeðið þitt og snautaðu burt!!”


Honum varð svo við þessi óvæntu skilaboð að hann féll afturfyrir sig í sætið sem þar var, setti upp eymdarsvip og ýtti síðan skjálfhentur á stopphnappinn. Ég hálfvorkenndi helvítinu en sveiaði þó á hann, vatt upp á mig og horfði út um gluggann. Skömmu síðar staðnæmdist vagninn, maðurinn stóð upp, tók blindrastaf og fálmaði skelkaður leið sína út úr vagninum.