Gamli maðurinn gekk önugur um ganga skólans. Hann var alltaf kengboginn og leit einna helst út fyrir að vera tröll sem kastað hafði verið til mannabyggða vegna þess að hann hefði verið of smár eða jafnvel illur fyrir hin tröllin. Hann var með risastór eyru og langt, mjótt og bogið nef sem náði næstum því niðurfyrir krumpaðan munnin. Annað augað hans var skjannahvítt og starði ávalt beint fram, á meðan hann skimaðist vel um með hinu auganu. Allir krakkarnir voru dauðhræddir við hann þar sem hann átti það til að urra og hvessa á þá augun ef hann rakst á þá á göngunum. Börnin kölluðu hann trölla sín á milli, en auðvitað þorði ekkert þeirra að segja það beint við hann augliti til auglitis. Einstaka sinnum hóstaði hann rosalega svo það glampaði í skakkar tennurnar uppi í honum og öll börnin hrukku í kút og hlupu í felur eins og fætur toguðu og oft gargaði hann eitthvað á eftir þeim.
Gísli litli var ekki síst hræddur við Trölla og nú titraði hann og skalf af ótta við að rekast á hann þar sem hann trítlaði eftir göngunum, orðinn allt of seinn í tíma eina ferðina enn. Hann var ekki minna hræddur um hvað umsjónarkennarinn hans myndi skamma hann mikið þegar hann loks kæmist inn í kennslustofuna því hún gat orðið býsna ill þegar Gísli rataði of seint inn í kennslustofuna. En gangar skólans virtust engan enda ætla að taka þennan morguninn. Gísli þorði nefnilega ekki að flýta sér því hann óttaðist að minnsta þrusk myndi vekja athygli Trölla ógurlega. Skyndilega heyrðust hágværir hóstar bergmála eftir öllum skólaganginum. Gísla langaði til þess að hlaupa en hann gat það ekki, hann var alveg frosinn pikkfastur við gólfið af hræðslu. Hann vissi vel að þarna var trölli á ferð. Hann heyrði hann nálgast og brátt mundi hann koma fyrir hornið og finna sig standandi úti á miðju gólfi. Honum tókst með naumindum að safna upp kjarki til þess að mjaka sér í lítið skúmaskot á ganginum. Þar beið hann með hjartað í buxunum eftir því að Trölli labbaði grunlaus framhjá. Honum var nú alveg sama hvað kennarinn mundi skamma hann mikið, enda var hér um líf og dauða að tefla.
Gísli hélt niðri í sér andanum því Trölli var nú í þann
mund að fara að labba framhjá honum. En skyndilega stansaði
Trölli og fór að þefa ákaft út í loftið.
-Nú er öllu lokið! Trölli á eftir að rata á lyktina af mér
og éta mig upp til agna! Hugsaði aumingja Gísli með sér og
var viss um að Trölli væri nú alveg með á hreinu hvar hann
væri í felum. En Trölli lét hann bíða eftir sér, hélt áfram
að þefa eins og hann ætti lífið að leysa. Gísli þoldi ekki
við lengur og hljóp öskrandi fram úr felustað sínum. Þessu
bjóst Trölli alls ekki við og brá ákaft við þessa
leyftursókn, en náði eitthvern vegin að þyrla brúnu
töfraryki í andlitið á Gísla. Þetta brenndi ægilega og
veslings Gísli gat ekki opnað augun. Hann hljóp stefnulaust
um ganginn gargandi:
-HJÁÁÁÁÁÁLP!!! ÉG ER ORÐINN BLINDUR OG TRÖLLI ÆTLAR AÐ KOMA
OG ÉÉÉÉTA MIG!! HJÁÁÁÁÁÁLP!!!
Einstaka skólastofa opnaðist og forvitnir og pirraðir
kennarar ráku út trýnin til þess að reyna að þagga niður í
þessum ólátabelg. Rétt áður en Gísli hljóp á vegg hrifsaði
Trölli hann harkalega til sín, tók hann undir handlegginn
og stikaði með hann eftir ganginum endilöngum tautandi og
muldrandi. Ekki róaðist Gísli við þessa meðferð og fór að
sprikla og orga enn hærra en áður, en Trölli var allt of
sterkur. Nú stoppaði Trölli og Gísli fann að hann var að
sulla vatni yfir hann.
-NEEEEEEEEEEEEEI!!! EKKI SJÓÐA MIIIIIG!!!! Gargaði gísli af
öllum lífs og sálar kröftum, en nú fór honum að líða aðeins
betur í augunum. Vatnið var að hreinsa töfraduftið úr
augunum á honum og hann var farinn að sjá pínulítið á ný.
En hann var samt dauðskelkaður og enn var hann fangi Trölla
og óviss um hvað yrði um sig.
Nú arkaði Trölli aftur af stað, nú yrði aumingja Gísli
étinn upp til agna hugsaði hann með sér, en sá síðan hvert
Trölli stefndi. Beinustu leið á skrifstofu skólastjórans.
Þeir þurftu ekki að bíða eftir skólastjóranum þar sem hann
stóð fyrir utan skrifstofu sína til að forvitnast um
hamaganginn frammi. Hann vísaði þeim samstundis inn til
sín.
Skólastjórinn talaði lengi við Gísla og eftir spjallið vissi hann að Trölli var ekkert tröll, heldur ósköp venjulegur gamall maður sem að hét Gunnar. Gunnar og Gísli tókust í hendur, en Gísli var samt ekki alveg hættur að vera hræddur við Gunnar. Þegar Gísli litli komst loksins inn í kennslustofuna daginn eftir mætti hann hann glottandi kennara og fagnaðarópum bekkjarfélaga sinna. Gísli var ekkert að upplýsa leyndarmál Trölla, því nú var hann ekki lengur strákurinn sem að mætti stundum of seint í tíma. Nú var hann Gísli, strákurinn sem að slapp lifandi úr klóm Trölla.