Gamli maðurinn sat á kaffihúsinu og sötraði biksvart
kaffi með sykri og fylgdist með fólkinu streyma hjá. Þetta
var það sem hann var vanur að gera er þau hjónin urðu
ósátt, sem var farið að gerast það oft að starfsfólk
kaffihússins var farið að þekkja hann með nafni.
-„Kaffið þitt hlýtur að vera orðið of kalt, herra
Lárus.” sagði silkimjúk rödd eftirlætis þernunnar
hans. „Má bjóða þér ábót í boði hússins?”
-„Jú, þakka þér kærlega.” Svaraði herra Lárus.
Hann hafði ekki tekið eftir því fyrr en nú að kaffið var
orðið ódrekkandi sökum kulda og þar að auki hafði geitungur
endað ævi sína í því og flaut stefnulaust um á
yfirborðinu.-„Sleppa sykrinum í þetta skiptið.”
Bætti herra Lárus við.
-„Ekkert mál, herra Lárus.”
Þernan var gullfalleg með rautt, slegið hár , heiðblá augu
og var góðmennskan uppmáluð, sama hvernig á stóð. Það var
ekki nema von að hún væri í slíku uppáhaldi hjá honum. Hann
vissi að hún var alltof ung fyrir hann, en gat ekki varist
því að gæla við þá hugmynd að skipta á henni og herfunni
sem hann giftist. Hann sá sem snöggvast konuna sína í anda
bera fram kaffi handa honum. Hann brosti og hló innra með
sér, en varð fljótt alvarlegur aftur. Nú hafði hún gengið
of langt og í þetta skiptið ætlaði hann sér ekki að snúa
aftur til hennar. Hún var alltaf að skipa honum fyrir, og
öll þessi neikvæða gagnrýni hennar var að gera útaf við
hann. Hann hafði minnst á skilnað við hana fyrir nokkrum
árum, en hún hafði þvertekið fyrir það. Nú versnaði hún dag
frá degi og nú var svo komið að mælirinn var orðinn fullur.
Hann hafði strunsað út og íhugaði jafnvel um tíma að þagga
niður í henni í eitt skipti fyrir öll með veiðibyssunni
sinni, en hugsaði svo með sér að það væri ekki hans stíll.
Hann komst ekki lengra í hugsunum sínum því lögreglubíll
brunaði framhjá með háværu sírenuvæli. Herra Lárusi brá svo
við þetta að hann kipptist allur til og sló kaffið úr
höndum þernunnar, sem var í þann mund að fara að leggja það
á borðið. Brennheitar kaffisletturnar helltust yfir hann
allan. Hann stóð upp í miklu fáti, pataði út höndunum og
hneig loks niður. Það hafði liðið yfir hann.
Það stóð læknir yfir herra Lárusi þegar hann rankaði við
sér. Hann leit ringlaður í kring um sig.
-„Vertu alveg rólegur, herra Lárus. Þú ert á
Landspítalanum. Við héldum þér sofandi í einn dag. Þú
fékkst smávægileg brunasár á andlitið og nokkuð þungt
höfuðhögg. Ég legg til að þú slakir á og safnir kröftum.
Síðan sleppum við þér úr prísundinni í fyrramálið, ef allt
fer að óskum.” Læknirinn var hávaxinn og
viðkunnanlegur í viðmóti. Hann talaði með djúpri, en
ákveðinni rödd sem hafði eitthvað í sér sem fékk Lárus til
að slaka á. Læknirinn gerði sig líklegan til að fara, en
sneri við í dyrunum og sagði: „Já, fyrirgefðu! Ég var
næstum búinn að gleyma, það kom ung og myndarleg kona að
heimsækja þig í dag. Hún skildi eftir þennan blómvönd handa
þér. Held að hún hafi heitið Unnur.”Á náttborðinu
stóð allmyndarlegur blómvöndur og kort með fallegri mynd af
landslagi fjarlægs lands.-„Þakka þér fyrir,
herra?”
-„Kallaðu mig bara Pétur, herra Lárus... Og eitt enn,
við höfum árangurslaust reynt að ná í konuna þína, ekki
vill svo til að þú vitir hvar hún er niður
komin?”-„Hún er líklega hjá einhverri vinkonu
sinni, við lentum í nokkuð slæmu rifrildi í
gærmorgun.”-„Ég skil.” Sagði Pétur.
„Reyndu að leiða hugann frá því, þú þarft að hvílast
núna. Ég kem og vara þig við ef okkur tekst að ná í
hana.” Pétur glotti prakkaralega og yfirgaf stofuna.
Herra Lárus starði tómlega út um gluggann sem snöggvast, en
mundi skyndilega eftir kortinu sem fylgdi blómvendinum.
„Kæri herra Lárus, mér þykir afskaplega leitt að
hafa misst kaffið yfir þig. Ég vona að þér batni fljótt og
mér hlakkar til að sjá þig hressan á kaffihúsinu fljótlega.
-Betrunaróskir, Unnur.”
„Þágufallssýki.” Sagði herra Lárus upphátt
og glotti við.-„Hún verður seint læknuð hér á
spítalanum!” Heyrðist hrum rödd segja í glettnistón
handan tjaldsins sem aðskildi sjúkrarúm Lárusar frá hinum á
stofunni.
-„Satt er það .” Segir Lárus. „Fyrir hvað
var þér svo varpað hingað, vinur?”-„Ég
skaðbrenndi mig á nýlöguðu kaffi.” Sagði ókunni
maðurinn. Herra Lárus skellti upp úr. „Ekki hló ég
mikið þegar þetta gerðist, hvað er svona fyndið?”
Spurði ókunni maðurinn ringlaður.
-„Ekki þekkirðu unga stúlku sem heitir Unnur?”
Spurði Lárus glettnislega er hann náði sér af
hláturskrampanum.
-„Nei, hví spyrðu?” Herra Lárus var greinilega
búinn að slá ókunna manninn alveg út af laginu.
-„Ég er nefnilega hér af sömu ástæðu, nema að þessi
Unnur hjálpaði örlítið.” Ókunni maðurinn hneggjaði af
hlátri og Lárus smitaðist af hlátrinum. Þegar þeir náðu sér
voru þeir báðir orðnir aumir í kinnunum af öllu brosinu.
„Hvað heitirðu, vinur?” Spurði Lárus
góðlátlega. Maðurinn kynnti sig og sagðist heita Jörundur.
Jörundur var á jafnaldri Lárusar, var kominn á eftirlaun og
bjó einn í stóru húsi í miðbæ Reykjavíkur. Þeir töluðu
lengi saman um daginn og veginn og skemmtu sér konunglega.
„Ég sé að þið eruð búnir að kynnast” sagði
Pétur læknir, sem kom inn í herbergið rétt í þessu.
„Á ég ekki að draga tjaldið frá fyrir ykkur, piltar
mínir?” Pétur dróg frá og fór. Lárus og Jörundur
heilsuðu hvor öðrum brosandi og héldu síðan áfram spjallinu
þar sem frá var horfið. Jörundur var þéttvaxinn með þrútið
nef og hafði greinilega farið aðeins verr út úr kaffinu en
Lárus, enda var þar heil kanna á ferð í stað bolla. Hann
var góðlegur til augnanna, brosti í sífellu og hristist
allur þegar hann hló. Þeir töluðu um allt milli himins og
jarðar og það endaði með því að þeir voru sussaðir niður af
starfsfólki sjúkrahússins, enda voru þeir farnir að halda
vöku fyrir fjölmörgum sjúklingum sem reyndu að blunda í
nálægum sjúkrarúmum. Lárus útskrifaðist degi áður en
Jörundur átti að útskrifast. Þeir voru nú orðnir það miklir
mátar að Jörundur treysti Lárusi fyrir húsinu sínu enda var
Brandur gamli, kötturinn hans, líkast til búinn með allan
matinn úr stóra dallinum sínum. Þegar Lárus var kominn í
hús Jörundar tók hann til í þakklætisskyni fyrir húsnæðið.
En þegar líða tók á daginn fór honum að leiðast og ákvað
hann að fá sér göngutúr yfir á eftirlætis kaffihúsið sitt.
Þegar þangað kom tók Unnur á móti honum með vandræðalegu
brosi og tók í höndina á honum og baðst innilega afsökunar.
Lárus gamli brosti, ekki bara vegna þessarar innilegu
móttöku heldur einnig vegna þess að frasinn „mér
hlakkar til” skaust strax upp í kollinn á honum þegar
hann sá Unni. Lárus var ekki búinn að sóla sig lengi í
góðviðri miðborgarinnar þegar Unnur kom með kaffibolla til
hans og tók hann tali.„Fyrirgefðu, en getur hugsast
að ég hafi séð þig í sjónvarpinu um daginn?”
Lárus glotti vandræðalega yfir þessum misskilningi og
svaraði spurningunni neitandi. Unnur tilkynnti Lárusi að
kaffið væri í boði hússins og yfirgaf borðið hugsi á svip.
„Þetta var undarlegt”, hugsaði Lárus með sér en
staldraði ekki lengi við þessa hugsun, tjörnin var svo
falleg í blíðunni…
„Æ, ég held ég hafi sofið of lengi, ég held að ég skelli mér í stuttan göngutúr til að ná sleninu úr mér, ég er svo dasaður eitthvað.”Það var eins og Jörundi væri illa brugðið við að Lárus hefði staulast á fætur.-„Villtu ekki tilla þér hérna hjá okkur Brandi og horfa á imbann? Þú hressist örugglega við það!” Mælti Jörundur hálf smeðjulega.
-„Kanski á eftir, mig langar að spássera aðeins um í Hljómskálagarðinum og fá mér ferskt loft. Ég kem aftur að vörmu spori.” Svaraði Lárus, setti upp hattinn og sneri sér að dyrunum.
-„Ekki fara núna!” Sagði Jörundur hátt, en í undarlegum tón og spratt upp úr stólnum sínum þannig að Brandur greyið, sem var á röltinu skammt frá og hafði líklega ætlað sér huggulega kvöldstund í kjöltu Jörundar, hraktist undan, vælandi. Lárusi var vitanlega brugðið við þessa undarlegu hegðun Jörundar.-„Æ, jú, veistu, ég þarf að hressa mig við, Jörundur minn.”-„NEI!! Ekki fara!!” Gargaði Jörundur um leið og hann hljóp til og gerði tilraun til að halda Lárusi föstum. Lárus streittist á móti og tókst loks að losa sig með þeim afleiðingum að Jörundur missti jafnvægið og hrundi niður stigann sem lá niður í kjallara hússins. Ógurlegt sársaukavein dundi um allt húsið og einmitt þá var útidyrahurðinni sparkað upp. Þrír lögregluþjónar spruttu inn og gripu Lárus föstum tökum.”Lárus Indriðason, þú ert hér með tekinn fastur í nafni laganna! Þú þarft ekki að tjá þig um það brot sem þér er gefið að sök, morðið á Mörtu Oddsdóttur, þú ert áminntur um sannsögli kjósirðu að tjá þig, þú átt rétt á lögfræðingi þér til aðstoðar á öllum stigum málsins sem og að láta aðstandanda vita hvar þú ert niðurkominn!„-„Ég iðrast einskis.” Sagði Lárus og glotti illkvittnislega.