Svisslendingar banna turnspírur múslima

Þá er það komið í gegn, Svisslendingar hafa bannað séstakar turnspírur moska þar í landi með 57% fylgi í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í gær. Ég skil þá að vissu leiti að vilja svona passa upp á sinn kúltúr og svona og þeir hafa sennilega verið fræddir um tilgang þessara turna: Þarna príla menn fimm sinnum á dag (morgun, hádegi, miðdag, sólsetur, og síðkvölds) og gala hástöfum... nema það tíðkaðist fyrir X hundrað árum síðan. Fæstar moskur sem hafa slíka turna nota þá á þennan hátt í dag heldur fer bænagalið fram innanhúss í þar til gerðum sal rétt eins og í kristnum kirkjum. Það eru 150 moskur í Sviss, þar af bera fjórar þeirra svona turna. Fimmti turninn fékk byggingarsamþykki en líkast til verður hætt við hann núna, hinir fjórir fá að standa. Skoðanakannanir leiddu í ljós fyrir viku að 37% væru fylgjandi þessu banni, í gær greiddu 59% atkvæði með banninu. Það er svakalega mikil aukning og mér dettur í hug að eftirfarandi veggspjöld hafi haft eitthvað um málið að segja:

stopja


Ég bara get ekki neitað því, mér finnst þessi mynd ógeðslega töff... en á sama tíma svo röng. Þetta er mjög sterkur áróður þarna. Reynið að ímynda ykkur íslenska fánann þarna í stað þess svissneska... bíðið við... þið þurfið þess ekki ég get fiffað þetta fyrir ykkur:

stoppjaisl

Auðvitað yrði fundið eitthvað meira grípandi en “turnspírubann”. En þetta er ofboðslega sterkt veggspjald. Búrkuklædd kona, grimmdarleg til augnanna með þjóðfánann í baksýn og upp úr honum rísa þessar turnspírur sem, í sillúettu, líta út eins og langdrægar eldflaugar. Er verið að banna turnana eða eldflaugar? Afi minn rölti framhjá mér þegar ég var að föndra myndina hér að ofan og hann sagði “já, auðvitað á að banna þetta, þetta er stórhættulegt!” - Hann sá turnana sem eldflaugar.

Þessar turnspírur eru víst álitnar af mörgum tákn um samfélag múslima á þeim stöðum sem þeir rísa, það getur verið að Svisslendingar hafi bara verið að sýna að þeir ráða í sínu landi. Fordómar hafa samt örugglega haft mikið að segja. Einnig getur verið að Svisslendingum þyki þessir turnar bara svona rosalega ljótir. Hvernig sem því líður þá er þetta bann orðið staðreynd og nú er spurningin hvort málinu ljúki þar með eða þurfa Svisslendingar núna að fara að passa sig í mið-austurlöndunum?
0 Comments