Ný heimasíða!

Sko köddlehn! Ég tók mig til, svona í tilefni þess að komið er rúmlega eitt ár síðan ég bloggaði síðast og útbjó þessa nýju vefsíðu.
Gamla síðan var orðin úreld og úr sér gengin á svo marga vegu að það verður vart upp talið með góðu móti, en þar ber helst að nefna myndasíðurnar, sem innihéldu myndir sem þóttu kannski flottar þegar þær voru skoðaðar með það í huga að 16 ára drengstauli krotaði þær, en ég er ekki 16 ára lengur svo ég verð að fara í gegn um þetta og sortera burtu og bæta við. Sem stendur er samt bara nýja forsíðan og Óhappabloggið uppi, en ég kem til með að bæta við þetta með tíð og tíma. :)

Annars er helst af mér að frétta sú staðreynd að ég hætti í tölvunarfræðinni í HR, en ég fór í hana með það í huga að læra forritun sem afbrigði listar. Hins vegar varð mér fljótt ljóst að forritunin er listform tveggja andstæða; listrænnar sköpunar og stærðfræði (já, ég lít á stærðfræði sem andstæðu listænnar sköpunar). Það er erfitt að koma þessu í orð, en upplifun minni á forrituninni væri kannski best lýst þannig að ég var með auðan striga fyrir framan mig, vopnaður ógrynni listáhalda, en svo var bara hægt að gera beinar línur, lárétt eða lóðrétt. Ég er fullkomlega meðvitaður um að jafnvel með þessum takmörkunum væri hægt að gera hvaða form sem er á strigan, en sköpunarferlið á bak við væri afskaplega heftandi. Ég get, hins vegar, alltaf snúið aftur upp í HR og tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið snúist mér hugur í framtíðinni. Ég vil þakka samnemendum mínum samveruna og óska þeim góðs gengis í náminu ef ske skyldi að einhverjir þeirra rötuðu á þessa bloggfærslu.

Nú er ég aftur kominn í gömlu vinnuna mína í Heimilisprýði og velti fyrir mér framtíðinni - uppástungur eru vel þegnar.

-Vonandi vikrar þetta nýja kommentakerfi mitt og vonandi náði nýja forsíðumyndin athygli ykkar! ;
0 Comments