Sæludagar
Já, enn og aftur er komið að sæludögum FB. Dagar þessir eru tveir talsins og fer lítil eða engin kennsla fram á meðan. Svona fínt fyrir þá sem að ætla á árshátíðina að geta safnað kröftum. Þetta er fyrsta skiptið sem ég tek þátt í þessari dagskrá og fæ fyrir vikið felld niður nokkur skróp og/eða óstundvísi.
Þetta gengur þannig fyrir sig að allir eiga að skrá sig í þrjá atburði, einn á fyrri deginum og tvo á þeim seinni. Úr nógu er að velja, svo sem: Bláa lónið, brjóstsykursgerð, sofa út (hringt á klukkutíma fresti til þess að láta mann vita að maður megi sofa lengur), "grafarþögn" (allir fara inn í kennslustofu og stundað þagnarbindindi í langan tíma), bandí, hokkí, speed date, go kart, veggjaklifur, LOTR maraþon, spila á spil, danskennsla, karatekennsla og fleira og fleira..........
Ég skráði mig í:
LAN: þar var spilað Counter-Strike og þannig leikir.
Hallgrímskirkju og tjörnina: Farið var upp í turninn og síðan niður að tjörn að belgja út fuglalífið.
Þjóðminjasafnið: Skoðunarferð um safnið.

Þetta fór á þessa leið:

LAN: Ég fór í Counter-Strike, ég tolldi í honum í rúman hálftíma (í stað þessara þriggja-fjögurra tíma sem að við áttum að vera þarna inni). Einhver imbi stillti leikinn þannig að ef maður skaut fólk sem var með sér í liði, þá drapst það... Þá varð þetta ekki leingur "la-la" og varð leiðinlegt. Ég er einn af þeim sem að drita fyrst og spyr síðan. Mér tókst samt sem áður að krækja mér í mætingu með því að vinna í skólablaðinu í staðinn.

Hallgrímskirkja og tjörnin: Planið var að fara með myndavél meðferðis (aðallega upp á tjörnina og mannfjöldann að gera) og gjörði ég svo. Þegar ég kom inn í kirkjunna var merkt við mig af fulltrúa skólans, ég spurði hana hvort útvegað væri brauð á eftir til að gefa fuglunum, en svo var víst ekki. Þá trítlaði ég inn í aðalsalinn og hugðist smella af einni mynd þar, en þá hafði fjandans vélin tekið upp á því að verða batteríslaus!! Þar sem að þetta er gömul vél, þá brúkar hún batteríin til þess að keyra ljósmælinn og til þess að smella af þannig að ég hefði alveg eins getað skilið hana eftir heima. Eftir að hafa bölvað vélinni í sand og ösku í guðshúsi ákvað ég að skella mér upp í turninn. Útsýnið var fínt og ég komst að því að það eru skrifstofur á 5. 6. og 7. hæð turnsinns. Í turninum gat maður vel séð stærð bjallanna sem að gefa frá sér þetta rosalega hljóð sem að berst um alla Reykjavík. Varð mér að orði við Kristjón félaga:
"Úff, hvernig ætli það sé að vera hérna inni þegar þessar k*GOOOOONNNG!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!*"
Mér hefndist fyrir guðlastið í aðalsalnum, allar bjöllurnar fóru af stað með ægilegum látum og skyndilega uppgötvaði ég hvers vegna það voru rimlar fyrir öllum gluggum turnsins.
Að þessu loknu héldum við niður og komumst að því að allur hópurinn var farinn niður að tjörn á undan okkur. Við flýttum okkur út í Björnsbakarí til þess að kaupa brauð og svo beint niður að tjörn með stuttri viðkomu í Hallanum.
Þegar niður að tjörn var komið voru einungis 5 manns eftir af hópnum og færðu þeir þær fréttir að aftur hefði verið gert manntal við tjörnina ásamt því að öllum var úthlutað brauði þrátt fyrir það sem mætingarfulltrúinn hafði sagt. Við vorum sem sagt álitin hafa stungið af eftir fyrsta manntalið og fengum skróp fyrir vikið.

Þjóðminjasafnið: Hér var meiningin að halda til á kaffihúsi eftir þessa misheppnuðu tjarnarferð þar til mæta átti á safnið. Tíminn flaug og ég hafði steingleymt að ég hafði boðist til þess að ná í Böðvar félaga út í Björgina í Hafnarfirðinum, en þar var í boði veggjaklifur. Hann hringdi í mig þegar ég, Kristjón og Bú (Ingunn) höfðum setið allengi á kaffihúsinu. Hann hafði fengið höfuðhögg og þurfti að kíkja upp á slysó. Mér skildist að hann hafi verið að flippa og ætlað að taka heljarstökk, en rekið hnéð á sér í höfuðið með fyrrnefndum afleiðingum. Eftir þessa sendiför var orðið full seint í rassinn gripið að ná í Þjóðminjasafnsferðina, en mér tókst að bjarga mér fyrir horn á ný með því að taka smá törn í skólablaðinu.

Á morgun: Rúta úr bænum, hótel, ball, partý, fyllerí og meira hótel og hvað eina.
Hinn daginn: ÞYNNKUFRÍÍÍÍÍ!!!! Laugh



|