Spánarmyndir og fangelsisvist?
Jæja, þá eru ljósmyndirnar sem ég tók úti loksins komnar úr framköllun!
Ég bjó til nýja hliðarsíðu hérna til hægri sem að heitir "Ljósmyndir" og skellti þeim þangað, en ég virðist eiga eitthvað bágt með að upphlaða síðunni sjálfri. vona að það virki.
Ég vara viðkvæma við nautaatsmyndunum... Ég get ekki lýst því hvað mér leið hryllilega á þeirri athöfn. :/

*EDIT* Ljósmyndasíðan er komin í gang, en engir íslenskir stafir nema í lýsingum myndanna. Sad */EDIT*

Annars er frá því að segja að í morgun barst mér kæra frá tollinum. Er mér gert að greiða tíuþúsund krónur í sekt ellegar dúsa í fangageymslu í ótilgreindan tíma. Tekið er fram að "Afgreiðsla málsins færist ekki í sakaskrá."

Um er að ræða tvö stykki skrauthnífa sem eru álíka oddhvassir og venjuleg teskeið og eru úr málmi sem ekki er hægt að brýna án þess að bræða járnið í blaðinu og steypa það upp á nýtt. Ef ég hefði vald á slíkum útbúnaði myndi ég nú einfaldlega bara smíða minn eigin hníf.
Í kærubréfinu, er lögreglustjóri Keflavíkurflugvallar sendi mér, er vísað í tvær lagagreinar:
123. grein tollalaga (nr. 55/1987) og 124. grein sömu laga, en þessi tollalög er hægt að skoða hérna. Til þess að finna greinar 123. og 124. þarf að skrolla niður eða leita að greinanúmerinu með því að þrýsta á CTRL+F á pc tölvum eða Epli+F á Mac.

Ég er búinn að lesa þessar greinar gaumgæfilega og sé ekki betur en svo að þær fjalli um smygl á tollskyldum varningi og refsingu við broti af því taginu. Skrauthnífarnir mínir kostuðu til samans um 5000 íslenskar krónur, en til þess að vara sé tollskyld þarf hún að hafa kostað yfir 16.000 íslenskar krónur. Þeir gætu alveg eins hafa vísað í lagagreinar sem fjölluðu um biðskyldu og tekið hnífana, -alveg jafnófær brúin þar.

Einnig, ef svo er að til séu lög sem banna innfluttning á skrautvopnum sem ekki er hægt að nota (lít á þessa hnífa sem styttur frekar en vopn) þá ætla ég samt sem áður að þræta fyrir að borga þessa sekt. Hvers vegna má ég ekki taka með mér plathníf til landsins frá Spáni ef ég má fara út í Hagkaup eða Kokku og kaupa mér þar mun stærri, beittari, oddhvassari og hættulegri kjöthnífa?
Sem dæmi má nefna trausta kjöthnífinn hennar mömmu sem stendur inni í eldhúsi og bíður þess að sér sé sökkt í hold. Hann er alls ekki ósvipaður þessum hníf (á mynd til hægri) sem kaupa má í Kokku á Laugarveginum. Hann er svo beittur að það er ógerlegt að vaska hann upp með uppþvottabursta því hárin skerast öll af í ferlinu.

Einnig má hafa það til hliðsjónar að ég er búinn að vera í og úr bardagalistum frá 6 ára aldri, ef ég ætlaði mér að skaða einhvern (sem ég hef ekki gert hingað til nema í sjálfsvörn), þá gerði ég það með berum höndum, fótum og höfði. Ég mundi aldrei grípa til eggvopns í slagsmálum og vona innilega að það séu fleiri eins og ég þarna úti.

Niðurstaða: Ég er tilbúinn til þess að sitja fangageymslur í allt að eina viku í stað þess að greiða þessa fáránlegu sekt fyrir glæp sem ég hef ekki framið. Svo er líka ágætt að fá eitthvað af þessum skattpeningum mínum til baka í formi matar og húsnæðis. -Og vonandi fæ ég sai hnífinn minn aftur... Mig hefur langað í svona síðan ég var fjögurra ára. :/
|