Fuglar!!! o_O
Ég varð fyrir skipulagðri árás fugla í dag.
Ég ákvað að það væri kominn tími á að fara að þrífa bílinn... Skellti mér með hann í þvottastöð og ók þaðan brosandi hringinn á skínandi hreinum bíl. Fimm mínútum seinna - *SPLATT!!* - Ég sá gerandann hvergi, en þetta hlýtur að hafa verið örn eða eitthvað af álíka stærð sem að jós þessari ókræsilegu slummu yfir hálfa framrúðuna á bílnum og aftur eftir öllu þakinu! o_O
Ég afréð að fá mér pylsu á Bæjarins Beztu™ áður en ég færi út í vinnu að þrífa framrúðuna. Keypti ég mér tvær pylsur og hélt á einni í hvorri hönd. Þegar ég var að taka bita nr. 2 af fyrri pylsunni fann ég hina pylsuna skyndilega þyngjast! Ég leit til að athuga málið og viti menn... ÞARNA SAT STARRI OFAN Á PYLSUNNI MINNI OG KROPPAÐI Í PYLSUBRAUÐIÐ!!! o_O
Af gamalli starrareynslu ákvað ég að leyfa honum bara að eiga pylsuna í stað þess að reka hann burt og éta hana sjálfur.
Þegar út í vinnu var komið trítlaði ég hugsi á svip inn eftir lagernum að ná í pappír til þess að þrífa bílinn með. Tók í hurðarhúninn á hurðinni innst í ganginum og hurðin fauk upp með miklum látum og ég með! ("%$% trekkur!!!) Við fórum þó ekki langt því fyrir hurðinni var vörutjakkur hlaðinn tveimur brettum sem batt skjótan endi á ferðalagið. Ég lét smávegis höfuðhögg ekki stöðva mig í ætlunarverki mínu og náði í pappír.
Með kúlu á hausnum og dofinn þumalfingur tók ég að strjúka pappírnum yfir dritaða framrúðuna. En dritið fór hvergi, það var frosið fast við framrúðuna og í stað þess að þrífa framrúðuna makaði ég hana út í kunnuglegum rauðum vökva (!). Ég leit í pappírinn, svo á dofna þumalfingurinn... báðir löðrandi í blóði! Svo virðist sem þumalfingurinn og þumalnöglin hafi skipt liði á flóttanum undan hurðinni ægilegu þarna skömmu áður. :S
Ég náði í plástur og náði síðan að skafa mesta dritið af bílnum með gluggasköfunni.
|